Bækur

Á morgun-serían #3 – Væntanleg 2024

Þriðja bókin í bókaflokknum er í þýðingu og er væntanleg snemma árs 2024.

Heljarfrost er beint framhald sögunnar Í skjóli nætur, um vinahóp sem finnur upp á ýmsum leiðum til að berjast við innrásarher.

John Marsden er ástralskur rithöfundur og kennari. Á morgun serían var skrifuð með það í huga að auka lesskilning og lestraráhuga, og hefur hlotið fjölmörg verðlaun. Serían er í dag vinsælasti ungmenna-bókaflokkur í Ástralíu.

Fyrir unglinga og ungmenni (12-18 ára).

#Ástralskar bókmenntir #Ástralskir rithöfundar #Ungmennabækur

Áður en við urðum þín

Memphis, 1939. — Hin tólf ára gamla Rill Foss og fjögur yngri systkini hennar lifa ævintýralegu lífi um borð í húsbáti foreldra sinna á Mississippi-ánni. En þegar faðir þeirra fer í flýti með móður þeirra á sjúkrahús eitt óveðurskvöld, þarf Rill að vera eftir og passa systkini sín — allt þar til ógnvekjandi menn mæta á staðinn. Börnunum er kippt burt frá öllu sem þau þekkja, komið fyrir á barnavistheimili og talin trú um að þau muni bráðum hitta foreldra sína á ný. En fljótlega átta þau sig á bitrum sannleikanum.

Aiken, Suður-Karólínu, nútíminn. — Avery Stafford er fædd inn í volduga og ríka fjölskyldu og virðist hafa allt sem hugurinn girnist; farsælan frama sem saksóknari, myndarlegan unnusta og væntanlegt brúðkaup. En þegar Avery snýr aftur heim til að hjálpa föður sínum að ná betri heilsu, verður óvæntur fundur til þess að hún situr eftir með óþægilegar spurningar og finnur sig knúna til að skoða fjölskyldusögu sína betur.

Í þessari áhrifamiklu skáldsögu verður átakanlegt óréttlæti til þess að líf tveggja fjölskyldna breytist til frambúðar. Ógleymanleg saga um fjölskyldur, systur og leyndarmál.

Byggð á sönnum atburðum.

Forsagan

Bókin er byggð á einu stærsta hneykslismáli sem upp hefur komið í Bandaríkjunum, þar sem forstöðukona ættleiðingarstofnunar rændi börnum frá fátækum foreldrum og seldi þau til ættleiðingar til ríkra fjölskyldna víðs vegar um Bandaríkin.

Frásögn Lisu Wingate er spennandi, átakanleg en að lokum upplífgandi og hún minnir okkur á, að jafnvel þótt leiðir okkar liggi til margra ólíkra staða, gleymir hjartað aldrei hvaðan það kom.

#Sannsögulegar skáldsögur #barnaheimili #Amerískar bókmenntir

Borðaðu froskinn – Tímastjórnun – námstækni

Bók með mynd af froski og klukku

„Borðaðu froskinn er ein af mínum uppáhaldsbókum sem ég reyni að kíkja reglulega í. Bókin er alþjóðleg metsölubók eftir Brian Tracy og er lýsing á 21 leið til að hætta að fresta og afkasta meiru á styttri tíma, eins og stendur á forsíðunni.
Mæli með þessari bók fyrir alla!“

Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar

Þessi bók getur gjörbreytt lífi þínu, en hún sér til þess að þú náir að klára fleiri mikilvæg verkefni – í dag!

Það er einfaldlega ekki nægur tími til að gera allt sem er á verkefnalistanum okkar – og það verður það aldrei. Árangursríkt fólk reynir ekki að gera allt. Það lærir að fókusa á mikilvægustu verkefnin og ganga úr skugga um að þeim sé lokið. Þau borða froskana sína.
Borðaðu froskinn! sýnir þér hvernig á að skipuleggja hvern dag svo þú getir miðað út þessi veigamiklu verkefni og lokið þeim á skilvirkan og árangursríkan hátt.

#Tímastjórnun #Markmiðasetning #Frestunarárátta #námstæknibækur

Í skjóli nætur (Á morgun-serían #2)

Í skjóli nætur er æsispennandi framhald sögunnar Á morgun, þegar stríðið hófst, um hóp unglinga sem er fyrirvaralaust staddur á miðju stríðssvæði. Þau munu aldrei gefast upp. Ekki átakalaust. En stundum er hugrekkið of dýru verði keypt.

Einhvers staðar í óbyggðunum eru Ellie og vinir hennar í felum. Það hefur verið ráðist inn í landið þeirra. Fjölskyldur þeirra og vinir eru fangar. Veröld þeirra hefur umturnast á einni nóttu. Og nú hefur vinahópurinn tvístrast. Tvö þeirra hafa lent í höndum óvinanna.

Nokkur úr hópnum fara í könnunarleiðangur og finna annan uppreisnarflokk sem er að berjast við óvinina – en hver eru þau og er þeim treystandi?

John Marsden er ástralskur rithöfundur og kennari. Á morgun serían var skrifuð með það í huga að auka lesskilning og lestraráhuga, og hefur hlotið fjölmörg verðlaun. Serían er í dag vinsælasti ungmenna-bókaflokkur í Ástralíu.

Fyrir unglinga og ungmenni (12-18 ára).

#Ástralskar bókmenntir #Ástralskir rithöfundar #Ungmennabækur

Á morgun, þegar stríðið hófst (Á morgun-serían #1)

Ellie og vinir hennar ákveða að fara í útilegu í óbyggðum Ástralíu, djúpt ofan í gili sem kallast Víti. Þegar þau snúa aftur heim viku seinna komast þau að því að óvinaher hefur ráðist inn í landið og fjölskyldur þeirra eru horfnar. Vinahópurinn þarf að taka erfiða ákvörðun: Þau geta flúið aftur upp í fjöllin eða gefist upp. Eða barist á móti.

Fáir ástralskir rithöfundar hafa náð jafnmiklum vinsældum og John Marsden, sem er bæði rithöfundur og kennari. Honum fannst mikil þörf vera á bókum sem höfðuðu til unglingsstráka, sem honum fannst ekki ná jafngóðum árangri í lestri og stelpur. Hann ákvað því að skrifa bókaflokkinn Á morgun-serían. Bækurnar eru gagngert skrifaðar með það í huga að auka lesskilning, orðaforða og lestraráhuga drengja en henta öllum kynjum. Söguhetjan, Ellie, er jafnframt sterk fyrirmynd stelpna.
Á morgun-serían hefur hlotið fjölmörg verðlaun og er í dag vinsælasti bókaflokkur sem hefur verið skrifaður fyrir unglinga og ungmenni í Ástralíu.

#Ástralskar bókmenntir #Ástralskir rithöfundar #Ungmennabækur

Þvoðu þér í framan stelpa

Reynslusögur fyrir konur sem vilja meiri lífsgleði og minni streitu

FINNST ÞÉR STUNDUM EINS OG ALLIR SÉU MEÐ LÍF SITT Á HREINU
NEMA ÞÚ? EF ÞÚ SVARAÐIR ÞVÍ JÁTANDI ÞÁ VIL ÉG SEGJA ÞÉR SVOLÍTIÐ:
ÞAÐ ER LYGI.

Rachel Hollis

Þessi bók er skrifuð fyrir ungar konur sem eru að reyna að halda öllum boltum á lofti, með misjöfnum árangri. Hvort sem það tengist fjölskyldulífinu, fyrirtækjarekstri eða öðru þá er Rachel Hollis með reynslusögu fyrir þig.
Rachel fjallar um streituna sem fylgir nútímasamfélagi og kemur með góð ráð til að hjálpa konum að draga aðeins úr kröfunum á sjálfar sig.

Þessi bók er bæði ögrandi og upplífgandi en í henni flettir Rachel ofan af tuttugu lygum og
rangtúlkunum sem koma of oft í veg fyrir að við lifum gleðiríku og afkastamiklu lífi; lygar sem við höfum sagt sjálfum okkur svo oft að við erum hættar að heyra þær.

Í leiðinni hvetur hún, skemmtir og gefur jafnvel smá spark í rassinn, til að sannfæra þig um að þú gerir allt sem í þínu valdi stendur til að verða lífsglaða, sjálfsörugga konan sem þér var ætlað að verða.

Hljóðbók á Storytel. Þvoðu þér í framan stelpa er ein af vinsælustu bókum Storytel á Íslandi.

#foreldrahlutverkið #hjónaband #maraþon #fósturforeldri #áföll #mömmuskömm #mammviskubit #drykkja #frumkvöðlar #uppeldi #streita #fyrirtækjarekstur

Litlir eldar alls staðar

Ein af 10 bestu skáldsögum áratugarins – TIME

Í Shaker-hæðum, rólegu og framsæknu úthverfi Cleveland, er allt ítarlega planað — frá skipulagi veganna, til litanna á húsunum, til farsælla lífa sem íbúar þess munu halda áfram að lifa. Og enginn er meiri holdgervingur þess anda en Elena Richardson en hún hefur það að leiðarljósi að fylgja reglunum. Þar til Mia Warren, leyndardómsfull listakona og einstæð móðir, flytur í þessa fullkomnu kúlu með unglingsdóttur sinni Pearl og leigir hús af Richardson-fjölskyldunni.
Fljótlega verða Mia og Pearl meira en leigjendur; öll fjögur börn Richardsonhjónanna dragast að mæðgunum. En Mia á sér dularfulla fortíð og virðingarleysi hennar fyrir reglum ógnar þessu vandlega skipulagða samfélagi.
Þegar vinir Richardson-fjölskyldunnar reyna að ættleiða kínverskt-amerískt barn, gýs upp forræðisdeila sem klýfur bæinn í tvennt og verður til þess að Mia og frú Richardson verða andstæðingar. Frú Richardson, sem finnst Mia og viðhorf hennar grunsamleg, verður staðráðin í að afhjúpa leyndarmálin í fortíð Miu. En þráhyggja hennar mun hafa óvæntar og skelfilegar afleiðingar fyrir hennar eigin fjölskyldu — og Miu.

Bókin heitir á frummálinu Little Fires Everywhere og er eftir bandaríska rithöfundinn Celeste Ng (borið fram ing).
Bókin var valin besta skáldsaga ársins 2017 í lesendavali Goodreads og Amazon, og ein af 10 bestu skáldsögum áratugarins hjá TIME.

#fjölskyldur #unglingar #foreldrar #ljósmyndun #listakona

Hungur

Minning um líkama (minn)

„Sagan af líkama mínum er ekki saga af stórsigrum. Þetta er ekki minning um
megrun. Hér mun ekki birtast ein einasta mynd af mér grannri þar sem ég
stend í annarri gallabuxnaskálm míns fyrra, feita sjálfs. Þetta er ekki bók sem
mun veita hvatningu. Ég bý ekki yfir einstökum skilningi um hvernig á að vinna
bug á óstýrilátum líkama og óstýrilátri matarlyst. Saga mín er ekki saga
velgengni. Saga mín er, einfaldlega sönn.”

Roxane Gay

Í þessari einlægu sjálfsævisögu ræðir metsöluhöfundurinn Roxane Gay upplifun sína af því að búa í líkama sem hún kallar „gríðarlega óstýrilátan.” Hún lítur skilningsríkum og krítískum augum yfir barnæsku sína, unglingsárin og þrítugsaldurinn — þar á meðal ofbeldisverk sem markaði þáttaskil í ungu lífi hennar — og færir lesendur inn í nútíðina og raunveruleika, sársauka og gleði daglegs lífs hennar.
Roxane veltir fyrir sér mörgum samfélagslegum málefnum, eins og líkamsímynd, offitu, magaermiaðgerðum, Biggest Loser og megrunariðnaðinum. En hún fjallar líka um hvernig við getum sýnt hvert öðru meiri nærgætni og góðvild.

Verðlaun
Hungur hlaut Lambda bókmenntaverðlaunin og var valin ævisaga ársins hjá Guardian og Goodreads. Bókin var valin ein af bókum ársins hjá People, Elle, Washington Post, Chicago
Tribune, BookRiot og PopSugar.

Um höfundinn
Roxane Gay var á meðal fyrirlesara Me Too-ráðstefnunnar, sem haldin var í september 2019 í Reykjavík, og hélt þar lokaræðuna.
Roxane Gay er höfundur ritgerðasafnsins Bad Feminist, sem var á metsölulista New York Times; skáldsögunnar An Untamed State, sem var tilnefnd fyrir Dayton Peace-verðlaunin, og smásagnasafnanna Difficult Women og Ayiti. Hún er dálkahöfundur hjá New York Times en hefur einnig skrifað fyrir Time, MsSweeney’s, Virginia Quarterly Review, Los Angeles Times, The Nation, The Rumpus, Bookforum og Salon. Sögur hennar hafa einnig verið valdar í smásagnasöfnin The Best American Short Stories 2012, The Best American Mystery Stories 2014 og önnur safnrit. Hún er höfundur World of Wakanda-teiknimyndasögunnar sem kom út hjá Marvel. Hún býr í Lafayette, Indiana, og stundum í Los Angeles. Hungur hlaut þýðingarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta og styrk úr sjóðnum Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku. Hljóðbók á Storytel.

#matarfíkn #líkamsvirðing #offita #fordómar #kynferðisofbeldi #áföll #megrunariðnaðurinn #ævisaga #magaermi #hjáveituaðgerð #menntun

Þvoðu þér í framan stelpa – Sjálfshjálp/Ævisaga
Litlir eldar alls staðar – Yndislestur & fjölskyldusögur
Hungur – Ævisaga hinnar mögnuðu Roxane Gay