Litlir eldar alls staðar

Litlir eldar alls staðar

Venjulegt verð 3.390 kr Tilboð

Litlir eldar alls staðar

„Það er vægt til orða tekið að segja að ég elski þessa bók … ég komst í geðshræringu. Sagan er djúpur leyndardómur um mátt móðurhlutverksins, ákefð unglingaástar og hættuna við fullkomnun.“ —Reese Witherspoon

„Bæði margbrotin og heillandi lýsing á óhugnanlega fullkomnu úthverfi…og spennandi skáldsaga um móðurhlutverkið…Það er magnaður árangur.“ —Publisher’s Weekly

„Fyndin, djúpvitur og ljúf. Hún er dásemd.“ —Paula Hawkins

„Ég var að klára Litlir eldar alls staðar og veit ekki hvað ég á að gera við sjálfa mig.“ —Nigella Lawson

„Vel skrifuð, algjörlega heillandi og með góða innsýn í unglingsárin og áhrif.“ —Nick Hornby

Í Shaker-hæðum, rólegu, framsæknu úthverfi Cleveland, er allt ítarlega planað—frá skipulagi veganna, til litanna á húsunum, til farsælla lífa sem íbúar þess munu halda áfram að lifa. Og enginn er meiri holdgervingur þess anda en Elena Richardson en hún hefur það að leiðarljósi að fara eftir reglunum.

Þar til Mia Warren—leyndardómsfull listakona og einstæð móðir—flytur í þessa fullkomnu kúlu með unglingsdóttur sinni Pearl og leigir hús af Richardson-fjölskyldunni. Fljótlega verða Mia og Pearl meira en leigjendur; öll fjögur börn Richardson-hjónanna dragast að mæðgunum. En Mia á sér dularfulla fortíð og virðingarleysi hennar fyrir reglum ógnar þessu vandlega skipulagða samfélagi.

Þegar vinir Richardson-fjölskyldunnar reyna að ættleiða kínverskt-amerískt barn, gýs upp forræðisdeila sem klýfur bæinn í tvennt og verður til þess að Mia og frú Richardson verða andstæðingar. Frú Richardson, sem finnst Mia og viðhorf hennar grunsamleg, verður staðráðin í að afhjúpa leyndarmálin í fortíð Miu. En þráhyggja hennar mun hafa óvæntar og skelfilegar afleiðingar fyrir hennar eigin fjölskyldu— og Miu.

Litlir eldar alls staðar kannar byrði leyndarmála, eðli listar og sjálfsvitundar, og gríðarsterkt afl móðurhlutverksins—og hættuna við að halda að það að fylgja reglunum geti komið í veg fyrir hörmungar.

Bókin var valin besta skáldsaga ársins 2017 í lesendavali Goodreads og Amazon.

Spurningar fyrir bókaklúbba eru hér: https://bergmalutgafa.is/pages/bokaklubbar

Stikkorð: Fjölskylda, foreldrar, unglingar, ættleiðing, vinátta, kynþættir, áhrif, list, ljósmyndun.

Bókin heitir á frummálinu Little Fires Everywhere og er eftir bandaríska rithöfundinn Celeste Ng.

Þýðandi: Berglind Baldursdóttir.

Frí heimsending innanlands. 

Bókin fæst líka í eftirfarandi verslunum: 

   

 

1. kafli

Allir í Shaker-hæðum voru að tala um það þetta sumar; hvernig Isabelle, sú yngsta af Richardson-börnunum, hefði loks farið yfir um og brennt húsið til grunna. Allt vorið hafði slúðrið snúist um Mirabelle McCullough litlu—eða, eftir því með hverjum þú hélst, May Ling Chow—og nú var loksins eitthvað nýtt og krassandi til að tala um. Skömmu eftir hádegi þennan laugardag í maí heyrðu viðskiptavinir, sem ýttu á undan sér innkaupakerrum í Heinen, sírenu-vælið í slökkviliðsbílunum sem óku í átt að andatjörninni. Klukkan korter yfir tólf var fjórum þeirra lagt fyrir innan rauðan borða meðfram Parkland-götu, þar sem öll sex svefnherbergin í Richardson-húsinu stóðu í ljósum logum og allir í innan við kílómetra fjarlægð gátu séð reykinn stíga upp yfir trén eins og þykkt, svart þrumuský. Seinna átti fólk eftir að segja að merkin hefðu verið til staðar allan tímann; að Izzy væri lítill brjálæðingur, að það hefði alltaf verið eitthvað undarlegt við Richardson-fjölskylduna, að um leið og þau heyrðu sírenuvælið þennan morgun vissu þau að eitthvað hræðilegt hafði gerst. En þá yrði Izzy að sjálfsögðu löngu farin og skildi engan eftir til að verja sig og fólk gat sagt—og sagði—það sem það vildi. En á þeirri stundu sem slökkviliðsbílarnir komu fyrst á vettvang og í þó nokkurn tíma eftir það, vissi enginn hvað var að gerast. Nágrannar hópuðust eins nálægt bráðabirgðatálmuninni—lögreglubíl sem var lagt þversum nokkur hundruð metrum frá—og þeir gátu og fylgdust með slökkviliðinu rúlla út slöngunum með hörkulegan svip manna sem vissu að baráttan var vonlaus. Handan götunnar stungu gæsirnar hausnum ofan í vatnið í leit að illgresi fullkomlega ósnortnar af uppþotinu.

Frú Richardson stóð á trjáflötinni og hélt fast um hálsmálið á ljósbláa sloppnum sínum. Þó komið væri fram yfir hádegi hafði hún enn verið í fastasvefni þegar reykskynjararnir fóru í gang. Hún hafði farið seint að sofa og hafði viljandi sofið út og sagt sjálfri sér að hún ætti það skilið eftir frekar erfiðan dag. Kvöldið áður hafði hún horft út um gluggann á efri hæðinni þegar bíl var að lokum ekið upp að húsinu. Heimkeyrslan var löng og hringlaga, djúpur skeifulaga bogi sem lá í sveig frá stéttinni að útidyrunum og til baka—svo gatan var rúmlega hundrað metra í burtu, of langt frá til að hún gæti séð vel og jafnvel í maí var þar að auki orðið næstum aldimmt klukkan átta. En hún hafði þekkt litla ljósbrúna Volkswagen-bíl leigjanda síns, Miu, með skínandi aðalljósin. Farþegadyrnar voru opnaðar og grannvaxin manneskja steig út og skildi dyrnar eftir hálflokaðar: Unglingsdóttir Miu, Pearl. Útiljósið lýsti bílinn upp að innan eins og skuggabox en bíllinn var stútfullur af töskum sem náðu næstum upp í loft og frú Richardson gat með naumindum séð daufar útlínur höfuðs Miu, með tætingslegan hárhnútinn á hvirflinum. Pearl hallaði sér yfir póstkassann og frú Richardson ímyndaði sér lágt ískrið sem heyrðist þegar póstkassinn var opnaður og svo lokað aftur. Því næst hoppaði Pearl aftur inn í bílinn og lokaði dyrunum. Bremsuljósin gáfu frá sér rauðan bjarma, dofnuðu svo og bíllinn ók út í vaxandi nóttina. Frú Richardson hafði fundið til léttis, farið niður í póstkassa og fundið þar lyklakippu á einföldum hring, án skilaboða. Hún hafði ákveðið að fara yfir um morguninn og athuga með leiguhúsnæðið á Winslow-vegi, jafnvel þótt hún vissi vel að þær yrðu farnar.

Þetta var ástæðan fyrir því að hún hafði leyft sér að sofa út og nú var klukkan orðin hálfeitt og hún stóð á trjáflötinni í sloppnum og tennisskóm af Trip syni sínum og horfði á húsið þeirra brenna til grunna. Þegar hún hafði vaknað við skerandi vælið í reykskynjaranum hljóp hún milli herbergja til að leita að honum, að Lexie, að Moody. Það sló hana að hún hafði ekki leitað að Izzy, eins og hún vissi þá þegar að þetta væri Izzy að kenna. Hún fann engan í herbergjunum, bara lykt af bensíni og lítinn snarkandi eld sem hafði verið kveiktur á miðju hvers rúms, eins og vitskert skátastelpa hefði verið þar í útilegu. Þegar hún hafði kannað stofuna, fjölskylduherbergið, tómstundaherbergið og eldhúsið, hafði reykurinn byrjað að dreifast og þá hljóp hún loks út og heyrði í slökkviliðinu, sem hafði fengið skilaboð gegnum heimavarnarkerfið og var þegar farið að nálgast. Í heimkeyrslunni sá hún að jeppinn hans Trip var farinn og líka Explorer-jeppi Lexie og hjólið hans Moody og auðvitað, sedan-bíll eiginmanns hennar.  Hann var vanur að fara á skrifstofuna á laugardagsmorgnum til að vinna í verkefnum sem höfðu safnast upp.  Einhver þyrfti að hringja í hann í vinnuna. Hún mundi því næst að Lexie hafði, guði sé lof, gist heima hjá Serenu Wong kvöldið áður.  Hún velti fyrir sér hvert Izzy hafði farið. Hún velti fyrir sér hvar synir hennar væru og hvernig hún ætti að finna þá til að segja þeim hvað hafði gerst.

 

Þegar búið var að slökkva eldinn hafði húsið ekki, þrátt fyrir ótta frú Richardson, alveg brunnið til grunna.  Gluggarnir voru allir farnir en múrgrind hússins stóð eftir, rök og svört og gufu lagði frá henni, og mestallt þakið, dökkar þakskífurnar glansandi eins og fiskhreistur eftir að hafa verið gegnbleyttar. Richardson-fjölskyldunni yrði ekki hleypt inn næstu dagana, þar til verkfræðingar slökkviliðsins hefðu prófað bjálkana sem eftir stóðu en jafnvel frá trjáflötinni—eins nálægt og guli VARÚÐ-borðinn hleypti þeim—gátu þau séð að það var lítið eftir inni til að bjarga.

„Dísus kræst,“ sagði Lexie. Hún hafði tyllt sér ofan á þakið á bílnum sínum sem var nú lagt handan götunnar, á grasinu við andatjörnina. Hún og Serena höfðu enn verið sofandi, samanhnipraðar með bakið hvor í aðra í tvíbreiðu rúmi Serenu, þegar dr. Wong hristi öxl hennar, stuttu eftir eitt, og hvíslaði: „Lexie.  Lexie, elskan. Vaknaðu. Mamma þín var að hringja.“ Þær höfðu vakað til næstum tvö um nóttina að tala saman—eins og þær höfðu gert allt vorið—um Mirabelle McCullough litlu og rifist um það hvort dómarinn hefði tekið rétta eða ranga ákvörðun, hvort nýju foreldrar hennar hefðu átt að fá forræðið eða hvort móðir hennar hefði átt að fá hana aftur. „Hún heitir ekki einu sinni Mirabelle McCullough, í guðs bænum,“ hafði Serena að lokum sagt og það helltist yfir þær óþægileg þögn þar til þær sofnuðu.

Nú horfði Lexie á reykinn stíga út um herbergisgluggann sinn, þann að framan sem var með útsýni yfir grasflötina, og hugsaði um allt þar inni sem var farið. Allir bolirnir í kommóðunni hennar, allar gallabuxurnar í skápnum hennar.  Allir miðarnir sem Serena hafði skrifað henni síðan í sjötta bekk, enn samanvöðlaðir í pappírsfótbolta sem hún hafði geymt í skókassa undir rúminu; rúmið sjálft, rúmfötin og sængin brunnin til ösku. Skrautblómið sem kærastinn hennar, Brian, hafði gefið henni á heimkomuballinu, hengt til þerris á snyrtiborðinu, krónublöðin höfðu dökknað frá rúbínrauðu í blóðrautt. Nú var það ekkert nema aska. Hún hafði tekið aukaföt með sér til Serenu og nú uppgötvaði Lexie allt í einu að hún hafði það betra en restin af fjölskyldunni hennar; í baksætinu var hún með íþróttatösku, gallabuxur, tannbursta. Náttföt. Hún leit á bræður sína, á mömmu sína, sem var enn í sloppnum á trjáflötinni og hugsaði: Þau eiga bókstaflega ekkert annað en fötin sem þau eru í. Bókstaflega var eitt af uppáhaldsorðum Lexie, sem hún notaði jafnvel í aðstæðum sem voru allt annað en bókstaflegar. Í þessu tilviki var það þó meira eða minna rétt.

Trip, sem var við hlið hennar, renndi fingrunum annars hugar gegnum hárið á sér. Sólin var núna hátt yfir höfðum þeirra og svitinn gerði krullurnar enn gæjalegri.  Hann hafði verið að spila körfubolta í félagsmiðstöðinni þegar hann heyrði væl í slökkviliðsbílum en hafði ekki hugsað nánar út í það. (Þennan morgun hafði hann verið sérstaklega niðursokkinn í eigin hugsanir en sannleikurinn var sá að hann hefði líklega ekki tekið eftir þeim hvort eð er.) Svo, klukkan eitt, þegar allir voru orðnir svangir og ákváðu að enda leikinn, hafði hann ekið heim.  Eins og við var að búast, og þó hann væri með opna glugga, hafði hann ekki tekið eftir risastóru reykskýinu sem barst í áttina að honum og hann fór fyrst að taka eftir að eitthvað væri að þegar hann sá að lögreglubíll lokaði götunni hans. Eftir tíu mínútna útskýringar hafði honum loks verið leyft að leggja jeppanum sínum á móti húsinu, þar sem Lexie og Moody biðu þegar. Þau sátu þrjú uppi á þaki bílsins í röð, eins og þau voru vön að gera á öllum fjölskyldumyndunum sem höfðu hangið í stigaganginum og voru nú orðnar að ösku.  Lexie, Trip, Moody: Tólftabekkingur, elleftabekkingur, tíundabekkingur. Við hlið sér fundu þau fyrir tómarúminu sem Izzy, níundabekkingurinn, svarti sauðurinn, villingurinn, hafði skilið eftir sig—þó þau væru enn fullviss, hvert og eitt þeirra, að þetta tómarúm yrði til bráðabirgða.

„Hvað var hún að hugsa?“ muldraði Moody og Lexie sagði: „Meira að segja hún veit að hún hefur gengið of langt í þetta sinn, þess vegna stakk hún af. Þegar hún kemur aftur á mamma eftir að myrða hana.“

„Hvar eigum við að gista?” spurði Trip. Það varð andartaksþögn meðan þau íhuguðu aðstæðurnar sem þau voru í.

„Við fáum hótelherbergi eða eitthvað,“ sagði Lexie að lokum. „Ég held að fjölskylda Josh Trammel hafi gert það.“ Allir þekktu þá sögu: Fyrir nokkrum árum hafði Josh Trammell, tíundabekkingur, sofnað út frá logandi kerti og brennt hús foreldra sinna til grunna. Sú saga hafði lifað lengi í skólanum að þetta hefði í raun ekki verið kerti heldur jóna en húsið hafði verið svo illa farið að það var ekki nokkur leið að segja til um það og Josh hafði haldið sig við sína sögu um kertið. Allir hugsuðu enn til hans sem hálfvitans sem kveikti í húsinu, jafnvel þótt það hefði verið fyrir löngu síðan og Josh hefði nýlega útskrifast frá Háskóla Ohio með láði. Nú yrði bruni Josh Trammell auðvitað ekki lengur frægasti bruninn í Shaker-hæðum.

„Eitt hótelherbergi?  Fyrir okkur öll?“

„Eða eitthvað. Tvö herbergi. Eða við fáum svítu. Ég veit það ekki.“ Lexie hamraði með fingrunum á hnéð. Hana langaði í sígarettu en eftir það sem var nýskeð—og á meðan mamma hennar og tíu slökkviliðsmenn sáu til—dirfðist hún ekki að kveikja í einni. „Mamma og pabbi finna út úr þessu. Og tryggingarnar borga fyrir það.“ Þótt hún hefði aðeins óljósa hugmynd um hvernig tryggingar virkuðu, þá hljómaði þetta líklegt. Hvernig sem færi, þá var þetta vandamál fyrir fullorðna, ekki þau.

Síðustu slökkviliðsmennirnir voru að yfirgefa húsið og fjarlægðu grímurnar frá andlitunum. Mestallur reykurinn var farinn en molla lá yfir öllu, svipað og loftið á baðherberginu eftir langa, heita sturtu. Þakið á bílnum var farið að hitna og Trip teygði fæturna niður eftir framrúðunni og ýtti í rúðuþurrkurnar með tánni á sandölunum sínum.  Svo fór hann að hlæja.

„Hvað er svona fyndið?“ sagði Lexie.

„Ég sé bara Izzy fyrir mér hlaupandi um, kveikjandi á eldspýtum út um allt.“ Hann hnussaði.  „Vitfirringurinn.“

Moody hamraði með fingrunum á þakgrindina. „Af hverju eru allir svona vissir um að hún hafi gert þetta?“

„Í alvöru.“ Trip stökk ofan af þakinu. „Þetta er Izzy. Og við erum öll hér.  Mamma er hér.  Pabbi er á leiðinni. Hvern vantar?“

„Svo Izzy er ekki hér. Er hún sú eina sem gæti verið ábyrg?“

Ábyrg?“ bætti Lexie við. „Izzy?“

„Pabbi var að vinna,“ sagði Trip. „Lexie var hjá Serenu. Ég var í Sussex að spila. En þú?“

Moody hikaði. „Ég hjólaði út í bókasafn.“

„Sko. Skilurðu núna?“ Trip fannst svarið augljóst. „Það var enginn hér nema Izzy og mamma. Og mamma var sofandi.“

„Kannski kviknaði í út frá rafmagni. Eða kannski gleymdi einhver að slökkva á hellu.“

„Slökkviliðsmennirnir sögðu að það hefðu verið litlir eldar alls staðar,“ sagði Lexie. „Eldsupptök á mörgum stöðum. Mögulega var eldfimur vökvi notaður. Ekki slys.“

„Við vitum öll að hún hefur alltaf verið brjáluð.“ Trip hallaði sér aftur að bílhurðinni.

„Þú ert alltaf að stríða henni,“ sagði Moody.  „Kannski það sé ástæðan fyrir að hún lætur eins og hún sé brjáluð.“

Handan götunnar byrjuðu slökkviliðsbílarnir að draga inn slöngurnar. Richardson-börnin þrjú sem eftir voru horfðu á slökkviliðsmennina leggja frá sér axirnar og taka af sér reyklitaða gula jakkana.

„Einhver ætti að fara og vera hjá mömmu,“ sagði Lexie en enginn hreyfði sig.

Eftir smástund sagði Trip: „Þegar mamma og pabbi finna Iz, eiga þau eftir að læsa hana inni á geðdeild það sem eftir er.“

Ekkert þeirra hugsaði um nýlegt brotthvarf Miu og Pearl úr húsinu á Winslow-vegi. Frú Richardson, sem horfði á slökkviliðsstjórann skrifa minnispunkta af nákvæmni á klemmuspjald, hafði steingleymt fyrrum leigjendum sínum. Hún hafði ekki enn nefnt það við eiginmann sinn eða börnin sín; Moody hafði komist að fjarveru þeirra snemma um morguninn og hann var ekki enn viss hvað það táknaði. Neðar á Parkland-götu byrjaði litla, bláa doppa BMW-bíls föður þeirra að nálgast.

„Af hverju ertu svona viss um að þau finni hana?“ spurði Moody.